Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir
- Kristinn Rúnar
- Jan 11, 2022
- 1 min read
Updated: Jan 23, 2022
Ég hitti geðlækninn minn, Ólaf Þór Ævarsson, í fyrsta sinn í dag eftir að Don’t Stop Me - My Life with Bipolar Disorder kom út. Gaf honum að sjálfsögðu áritað eintak. Hann hefur hjálpað mér mjög mikið síðustu ár og við erum í sameiningu að reyna að finna lausnir á mínum geðsveiflum. Sem eru nær eingöngu uppsveiflur síðustu ár, þunglyndið tilheyrir fortíðinni, sem betur fer. Það má þakka m.a. nákvæmum lyfjaskömmtum, þó ekki stórum, samtalsmeðferð og góðri eftirfylgni - en manían ætlar að fylgja mér eitthvað lengur.
Ólafur er algjör fagmaður og er ansi framarlega í sínu fagi, ekki bara hér á landi heldur í heiminum, leyfi ég mér að fullyrða. Hann er alltaf tilbúinn að hjálpa manni, þó svo að ég eigi ekki bókaðan tíma hjá honum og hann með mörg þúsund skjólstæðinga á sínum snærum. Hann samgleðst mér þegar vel gengur og tekur það inn á sig þegar ég fer í maníu og mér líður illa. Við erum að reyna eins og við getum að ná góðu jafnvægi. Vonandi tekst það á komandi árum.
Hann er að hjálpa mér að koma bókinni á framfæri erlendis með sínum samböndum og gaf mér mörg góð ráð fyrir ensku útgáfuna. T.d. að sleppa „Crazy” í undirtitlinum. Ég var lengi vel að hugsa um að hafa titilinn: Don’t Stop Me - My Crazy Life with Bipolar Disorder. Hann ráðlagði mér að sleppa því, bókin gæti tapað trúverðuleika með því og hitt væri faglegra.
Takk fyrir allt saman kæri Ólafur, við finnum bráðlega fullkomið jafnvægi hjá mér í sameiningu.
KRK

Comments