Óli Kristjáns
- Kristinn Rúnar
- Aug 24, 2022
- 2 min read
Updated: Sep 5, 2022
Við Óli Kri höfum átt skrítið samband ef samband mætti kalla síðan árið 2009. Ég hringdi í hann í minni fyrstu maníu 2009 og sagðist vera markakóngurinn á Shell-mótinu 1998 og að Breiðabliksliðinu bráðvantaði framherja. Ég væri sá maður. Óli varð nokkuð spenntur og ég mætti á æfingu síðar um daginn. Eftir hana var gripið inn í, ég kallaður á fund og sagt að ég gæti ekki labbað svona inn í liðið, ég yrði að byrja hjá Augnablik. Fljótlega náði manían hápunkti sínum og ekkert varð af þessum fótboltadraumi mínum.
Árin á eftir upplifði ég að litið væri mikið niður á mig af sumum aðilum innan klúbbsins eftir maníuna, þá aðallega af Óla Kristjáns, þáverandi þjálfara meistaraflokks, og Óla Björns þáverandi formanni meistaraflokksráðs. Ég og Óli Kri höfum aldrei rætt saman en ég hef látið hann duglega heyra það fyrir vanvirðinguna í minn garð, bæði í bókinni minni og einnig þegar hann þjálfaði FH 2020. Ég öskraði á hann að hann væri ekki velkominn í Kópavoginn aftur … maðurinn sem færði okkur einu stóru titlana hingað til. Innst inni var ekki annað hægt en að bera virðingu fyrir honum.
Við höfum hist nokkrum sinnum síðustu vikurnar í kringum Blikaleikina en hann er í dag yfirmaður knattspyrnumála Breiðabliks. Ég sagði honum í byrjun ágúst að hann væri í bókinni minni ef enginn væri búinn að segja honum það - kom mér spánskt fyrir sjónir að hann var búinn að lesa hana í gegn. Hann var ánægður með bókina, ég sagðist ekki hafa nafngreint hann þó allir sem hafa vit á íslenskum fótbolta gátu áttað sig á hver þjálfaði Breiðablik á þessum tíma. Óli sagði að ég hefði alveg mátt nafngreina sig - fyrst hann tók svona vel í þetta þá bauð ég honum áritað eintak frá mér og að taka smá spjall og skella í mynd saman.
Ég sendi honum SMS til að plana hittinginn: „Blessaður Óli, þetta er Kristinn Rúnar rithöfundur. Í þetta sinn ætla ég ekki að biðja þig um að fá að koma á æfingu með Blikunum, þó andlega jafnvægið sé gott þá er líkamlega formið ekkert spes sem og að aldurinn er að færast yfir mig … við ræddum á föstudaginn síðasta að hittast. Ég er með bókina mína á íslensku og ensku fyrir þig og fyrir klúbbinn. Ertu í Smáranum í dag?”
Hann upplifði ekki að hafa vanvirt mig á sínum tíma en gat heldur ekki útilokað það. Þetta hafi verið skrítin móment með mig 2009 og ég svona nátengdur öllu hjá félaginu. Einnig sagði hann mér að honum hafi sárnað að ég hafi öskrað svona á sig fyrir framan fulla stúku á Kópavogsvelli 2020. Það var töluverð illska í því, ég viðurkenni það.
Ég gaf honum árituð eintök af Maníuraunum og Don’t Stop Me og auðvitað fékk Breiðablik líka eintök.
KRK

Comments