top of page

Þroski

Updated: Sep 5, 2022

Ég ligg hérna uppi í rúmi, létt andvaka að hugsa um lífið og tilveruna. Engin manía þetta sumarið virðist vera. Gerist varla úr þessu, þær eru langoftast í júní eða júlí. Skrítið hvernig þetta er, ómögulegt að reikna það eitthvað út. Eða jú, reyndar, þetta er 14. sumarið talið frá fyrstu maníunni minni árið 2009. Þetta sumar er maníulaust, að öllum líkindum, þannig að 6 maníur á 14 sumrum= 43% líkur. Svipað og prósentan mín úr þristunum í körfunni í den.


Þunglyndið þroskaðist af mér með aldrinum, sem betur fer, annars væri ég löngu búinn að kalla þetta gott. Maníurnar hjá mér hafa breyst og ég hef þroskast með þeim líka - á þann hátt að ég hef lokið þeim kafla í lífinu að gefa út nokkurs konar ævisögu, þá 29 ára gamall, sem um 5000 manns hafa lesið eða hlustað á. Síðustu tvö árin, þá hafa margir ekkert vitað að ég hafi verið eitthvað hátt uppi verandi á meðal fólks. Maníurnar hafa verið bæði vægari og ég kunnað betur inn á þær.


Maníurnar 2014, 2015 og 2017 voru svo trylltar og stjórnlausar að ég skildi ekki hvað væri að gerast hverju sinni og af hverju ég væri að koma mér í allar þessar aðstæður, uppákomur og árekstra. Ég áttaði mig á því síðar, þetta var allt saman gert fyrir djúsí sögur að segja frá seinna meir, án þess að hafa ákveðið eitt né neitt á þeim tíma. Fyrir vikið „sit ég uppi með” tveggja tíma fyrirlestur og 320 bls. bók, nú á tveimur tungumálum, eftir allt þetta bíó síðustu ára … og skammast ég mín ekki í eina sekúndu fyrir fortíðina. Ég hef verið hvatning fyrir aðra að vera opin með sín andlegu mál og það gerir mig alltaf stoltan.


Það spurði mig gömul vinkona á djamminu í vetur hvort ég væri ennþá að fara í þessar maníur. Ég upplifði, án þess að hún segði það, að ég yrði að fara að þroskast upp úr þeim. Ég tók þetta til mín á jákvæðan hátt og hugsaði með mér að það gengi ekki lengur að vera að eyða t.d. milljón á 2-3 vikum í þessum maníum, í allt sem mig langaði í, og að rembast síðan við það allan veturinn að reyna að rétta sinn hlut aftur. Reyna að þroskast meira og betur, eins og vinkonan sagði ekki við mig en sagði eiginlega samt.


Mynd í góðu jafnvægi fylgir. Ég myndi segja laukferskur, nokkuð brattur og bjartsýnn á meiri þroska á næstu árum - er reyndar ennþá spurður um skilríki í ríkinu en verð að horfast í augu við að það styttist óðfluga í hálffertugt!


KRK






 
 
 

Comments


  • facebook
  • instagram

Reykjavík - Iceland

© 2025 Kristinn Rúnar

bottom of page